nóvember 10, 2004

Flutningar

Ég áforma að flytja úr íbúðinni minni að Sharía Mahmúd Azmí. Ég á eftir að sakna þessa kaffihúss, hvar ég sit núna og drekk morgunkaffið mitt eina ferðina enn. Ég á eftir að sakna þess að bókstaflega búa á fjölförnustu götu borgarinnar, þar sem maður fær taxa um leið en um leið verð ég dauðfeginn að losna við umferðarhljóðið, sem var meira en ég ætlaði í upphafi – og að búa einsog fangi í íbúð þar sem aldrei er hægt að opna glugga eða svalir, því þú gætir allt eins farið í picknick á Miklubrautinni, nema hvað hún er ekki á tveimur hæðum einsog 26. júlí stræti.

Í gærkvöldi fór ég og heimsótti Eric frá Quebeck, að skoða íbúðina hans. Ég kynntist honum í gegnum vini mína hérna úti. Hann býður mér að leigja með sér þennan mánuð sem ég á eftir. Hann er hérna í starfsþjálfun hjá Kaíró-skrifstofu Alþjóða vinnumálastofnunarinnar (ILO) og verður hérna í nokkra mánuði. Það vill reyndar þannig til að ég þekki báða starfsþjálfunarnemana hjá ILO í Kaíró, því ég kynntist Eric í gegnum hana Paulu frá Ítalíu, sem er svo samleigjandi vinkonu vinkonu vina minna. Fólk sem þekktist ekki fyrir viku en eru núna allir saman bestu vinur. Að vera útlendingur í ókunnugu landi án vina og fjölskyldu gerir mann að vini allra hinna útlendinganna sem maður kynnist í gegnum vini sína. Alla þyrstir í félagsskap eftir mismargar vikur af einangrun.

Íbúðin hans Erics er engin höll, með hálf funky eldhúsi og sjúskuðu baðkari (lesist: sturtubotni í mínu 190 cm tilfelli). Hann er hinsvegar með stórar svalir, allt-að-því-snyrtileg húsgögn, tæknilega séð útsýni yfir Níl og það sem mestu máli skiptir: BBC! Á móti kemur að ég er 5 mín. í næsta mannsæmandi kaffihús og heilar 10 mín. að labba í næstu þráðlausu internettenginu. Svosem ekki langt og ef ég sakna „hverfisins míns“ svona mikið, get ég alltaf labbað í 20 mín. á Cilentro eða Diwan. Ekki það að ég hef aldrei skoðað AUC bókabúðina sem er rétt hjá hinni íbúðinni, því að AUC hostelið er í þarnæstu götu.

Stóra spurningin, fyrir utan rennandi vatn og annað slíkt, er samt meðleigjandinn. Ég held að Eric sé bærilegur kandidat í það hlutverk. Svolítið upptekinn af sjálfum sér (og því kemur ekki á óvart að hann sé löggildur lögfræðingur í Kanada á næsta ári), áhugamaður um fótbolta og viský og getur talað um pólitík.

Ég hálfpartinn finn að ég nenni ekki að fara að standa í því um þarnæstu helgi að reyna upp á von og ótta að finna nýjan meðleigjanda í skólanum – og vera búinn að finna nýja íbúð fyrir þann tíma, sem er ekkert skemmtilegt. Þannig lagað væri ágætt að leigja með Eric. Ég er líka búinn að kynnast honum aðeins, sem er kostur. Svo kaupir hann The Economist, þannig ég get sparað mér 27 EGP á viku :-) Þar fyrir utan virðist hann „líberal“ í skoðunum og hæfilega þrifinn. Hann eldar m.a.s. í eldhúsinu, sem er gott mál, því ég nenni ekki að elda einn. Hann virkar hæfilega duglegur í að hitta fólk, sem er nauðsynlegt, því hérna kynnistu ekki fólki nema í gegnum sameiginlega vini.

Ég ætla aðeins að sofa á þessu öllu saman áður en ég tek ákvörðun. Ekki stökkva á neitt. Kanna líka betur aðra möguleika en einsog staðan er í dag sé ég ekki betur en að ég muni búa áfram á Zamalek, bara öðru staðan, og með frönskumælandi meðleigjanda, bara öðrum sem talar ensku betur.
Agust skrifaði 10.11.04 11:01 (GMT+2)
(Íslenska)
Comments

Sé að þú gafst upp á aðallgötunni í Zamalek. Get vel skilið það. Vona að flutningarnir gangi vel og það verði betra á nýja staðnum.
Hafðu það gott yfir helgina, vonandi nærðu að nota hana til að skoða landið eitthvað. Reyni að hafa samband eftir helgina, væri gaman að geta hist aftur:-) Og takk enn og aftur fyrir góðgætið...er að vinna mig í gegnum lakkrísinn, nammi, namm:-)
Gemsinn minn lést af elli um daginn þannig að ég er gemsalaus þessa dagana, ef þú þarft eitthvað að ná í mig best að skilja bara eftir skilaboð í búðinni (378-1006).
Heyrumst síðar!
Sigrún

Sigrún skrifaði 12.11.04 08:43