nóvember 18, 2004

Pýramítar, taka 2

Á laugardaginn, 13. nóvember, fór ég aftur að skoða pýramítana. Það reyndist jafn ánægjuleg ferð og sú fyrri var ekki. En fyrst skal segja frá fyrri ferðinni. Taka 1

Ég fór fyrst viku áður með Yann, meðleigjanda mínum. Þá fórum við með almenningsstrætó til Giza, sem ætti ekki að taka lengri tíma en 30-45 mín. Sökum umferðar vorum við hinsvegar vel á annan tíma á leiðinni. Þegar við komum að pýramítunum komumst við að því að þeir myndu loka eftir innan við hálftíma. Lokað klukkutíma fyrr en venjulega vegna Ramadan. Ojæja, við tókum nokkrar myndir og ákváðum svo að ganga út að hinum innganginum, Sfinx megin til að mynda sólarlagið.

Komumst klakklaust í gegnum hverfið sem tegir sig alveg upp að pýramítasvæðinu og biðum eftir að sólin settist. Úlfaldaprangarar og túristahösslarar voru sem mý á mykjuskán í kringum okkur. Og einn geðsjúklingur, sem öskraði sig hásan á mig eitthvað um að ég væri Ísraeli. Túristalöggan hló bara. Ágúst pirraður.

Við ákváðum að fá okkur að drekka, því við höfðum hálftíma fram að sólsetrinu. Ég vildi fara inn á Pizza Hut/KFC sem er m.a.s. með gluggaútsýni út á Sfinxinn. Yann neitaði. Hann borðar ekki á Pizza Hut í útlöndum, vill „orginal“ staði. Sitthvort flöskuvatnið greinilega, á Pizza Hut og „orginal“ stöðunum hans. Ég tuðaði en lét eftir honum. Gengum upp eftir götunni þangað til hann fann stað. Þar sem þetta var local staður var ekki hræða þar inni. Enn hálftími til sólsetur og föstumánuður múslima, þannig við sátum og drukkum úr rándýrri vatnsflösku meðan eigandinn stólaði upp og skúraði í kringum okkur fyrir kvöldið. Ágúst pirraður.

Við fórum aftur út og mynduðum sólsetrið. Greinilega ekki allir úlfaldaprangarar farnir til síns heima, því enn létu – sömu prangararnir – okkur ekki í friði. Að ógleymdum öllum sjálfskipuðu „ríkisstarfsmönnunum“ sem vildu ólmir fylgja okkur um lokað svæðið. Ágúst verður enn pirraðari en sólsetrið er fallegt og ég næ ágætum myndum.

Þá var að koma sér heim. Löbbuðum eftir götunni upp að pýramítunum til að ná í leigubíl, ekki pýramíta-túrista-yfirborgaðan-leigubíl. Á stóru götunni sem tengist svo Pyramits Rd. var engan leigubíl að fá. Ágúst verður pirraður og stoppar næsta leigubíl sem kemur (með farþega). Það bar þann árangur að okkur voru boðnir heimaræktaðir bananar af farþeganum og leigubílsstjórinn skuttlaði okkur að metróstöðinni í Giza, einsog við báðum um, þegar hann var búinn að skila af sér hinum farþeganum. Heimtaði reyndar 10 LE og ég var ekki í skapi til annars en láta undan honum fyrst ég var svogott sem kominn heim. Og þaðan komumst við niður í bæ fyrir 10 kr. íslenskar. Ég fyrir mitt leyti með ógeð af úlfaldapröngurum og túristasvikurum.


Taka 2

Taka 2 var á laugardaginn var. Á fimmtudagskvöldið höfðum við pantað minibus með bílstjóra til leigu frá 12 um miðnættis á laugardeginum. Foreldrar Gavins komu á föstudeginum og pabbi Erics, verðandi meðleigjanda síns, hafði komið á fimmtudeginum. Það var því plönuð ferð í sameiningu, foreldradagur við Pýramítana. Og Íslendingur fékk að fljóta með til skemmtunar.

Laugardagurinn rann upp og bíllinn, Toyota Hiace, reyndist einn af þessum sem greinilega á of ástríkan eiganda. Krómlistar og diskóljós undir honum svo eitthvað sé nefnt. Sætin hinsvegar, einsog allt annað í þessu landi, ekki hönnuð fyrir 190 cm. þannig ég fékk framsætið.

Til Pýramítanna var haldið. Gengum um svæðið innan um bandaríska miðaldra túrista á bermúdabuxum. Karlpeningurinn æddi út í „eyðimörkina“ til myndatöku. Útsýni fallegt. Hiti 32 stig.

Gengur síðan niður að Sfinxinum. Náði góðri prófílmynd. Hitti svo Andjelu og Chimo þar. Mæltum okkur mót í ljósasjóvinu um kvöldið.

Foreldrafélagið hélt ferð sinni áfram – til Saqqara. Þar var allt lokað en við vissum það. Náðum að sjá „tröppupýramítann“. Hittum döðlubónda. Hann bjó vel á býli sínu með tveimur eiginkonum og fimmtán afkvæmum. Hreysin sem vinnufólkið bjó í voru ekki alveg eins búsældarleg. Börnin báðu um penna til að teikna með en allt sem við áttum var sódavatn.

Héldum aftur til Giza innan um sveitaumferðina, uxar, asnar og verkamenn af ökrunum á leið í iftar. Enduðum að fá okkur smá snarl í bakaríi, til að múslimarnir í hópnum syltu ekki til bana. Týpískar egypskar samlokur sem smökkuðust ágætlega. Fékk hringingu frá Andjelu og Chimo. Þau voru við pýramítana, þar sem allt var lokað og myrkur að skella á. Svangir bakpokaferðalangar. Við, ríka, flotta fólkið ákváðum hinsvegar að skella okkur í kaffi fyrir ljósasjóvið. Fórum því upp í Mena House, sem er fimm stjörnu hótel í gamalli höll Kedível Ísmael frá lok 19. aldar. Drukkum þar kaffi innan um moldríka. Toilettin voru æði.

Fórum á ljósasjóvið. Þar tók á móti okkur sjón sem ég held að sé með því furðulegasta sem ég hef séð hérna í Egyptalandi: Egyptar klæddir einsog faróar spilandi á sekkjapípur. Já, sekkjapípur. Hitti Andjelu og Chimo á sjóvinu, sem reyndist vera frekar... já, hallærislegt er ágætt orð yfir það. Hefði samt, merkilegt nokk, ekki viljað missa af því. Sérstaklega ekki „sekkjapípufaróunum“.

Eftir ljósasjóvið fórum við á Mongul Room í Mena House, þar sem við áttum pantað borð. Mongúlasalurinn er einn besti veitingastaður borgarinnar, indverskur einsog nafnið gefur til kynna. Borðuðum eins mikið og við gátum en afþökkuðum eftirréttina, sem flestir áttu þó inni, því flestir pöntuðum tilbúinn matseðil, sjö réttaðan að mig minnir. Sjálfur get ég auðvitað aldrei látið aðra velja matinn ofan í mig, þannig ég pantaði mér kashmírskan lambakjötsrétt en kjúkling í forrétt. Þvílík himnasæla. Flestir fengu sér bjór með matnum, jafnvel tvo og reikningurinn hljóðaði upp á ca. 200 LE fyrir manninn, sem eru u.þ.b. 2500 kr. íslenskar.

Komum heim um miðnættið alsæl. Borguðum bílstjóranum umsamin 300 LE fyrir aksturinn auk 50 LE í tipp. Hann brosti hringinn, sjálfsagt meira en hann fékk frá bróður sínum sem átti bílinn fyrir 12 tíma vinnudag. Átti það vel skilið, enda þægilegur en algjörlega laus við enskukunnáttu blessaður.

(Myndir frá seinni ferðinni eru væntanlegar, insjallah.)
Agust skrifaði 18.11.04 11:08 (GMT+2)
(Íslenska)