febrúar 13, 2005

Að geta í eyðurnar

Það getur krafist frjós ímyndurafls að horfa á arabísku-útgáfuna af Friends. Með "arabísku útgáfunni" á ég við þá útgáfu sem arabísku gervihnattastöðvarnar frá Flóaríkjunum sýna, t.d. Onetv í Dúbaí. Sökum ritskoðunar er nefnilega allt "ósiðlegt" klippt út. Við horfðum á Bend it Like Beckham um daginn, þar sem t.d. setning þar sem aðalpersónan, sem er shíki, segist auðvitað ekki geta gifst hvítum strák eða múslima. Samkvæmt því er bannað að segjast ekki geta gifst múslima í arabísku sjónvarpi.

En aftur að Vinum. Dæmi um mismuninn á óklipptu útgáfunni af Friends og "arabísku útgáfunni":
  • Barnmóðir Ross er einstæð móðir sem á vinkonu en auðvitað er samkynhneigð ekki til
  • Ross og Rachel kysstust aldrei (fyrir hjónaband)
  • Joey fer bara út með deitunum sínum, en sefur aldrei hjá þeim
  • Í þætti sem ég sá áðan var Monica að horfa á gamla heimaupptöku. Í arabísku settist hún í sófann, horfði á upptökuna og greyp svo allt í einu fyrir munninn af undrun. Það sem hún sá á upptökunni var klippt út!
Stundum er auðvelt að átta sig á því hvað er að gerast. Líkt í fyrrnefndum þætti sem ég sá í dag þar sem Rachel gekk upp að Ross - klippt - og svo eru þau í faðmlögum, segir sig sjálft. Stundum er hinsvegar ómögulegt að vita hvað gerðist ef klippti hlutinn er of langur. Stundum er þetta svo misvísandi, sbr. þegar við horfðum á Bent it Like Beckham að aðalpersónan fer út af skemmtistað, ásamt þjálfara sínum og vinkona hennar fylgir á eftir. Í arabísku klippingunni fara þau út, tala saman og vinkonan sér þau tala saman. Svo skilur maður ekkert af hverju vinkonan, sem var hrifin af þjálfaranum, er svona fúl eftir á. Í óklipptu útgáfunni kyssast aðalpersónan og þjálfarinn en sökum þess hvernig upphaflega klippingin fer á milli sjónarhorna vantar aðeins eitt "brot" í arabísku útgáfuna þannig maður varla tekur eftir því. Það tók okkur nokkra stund að átta okkur á því að þetta hafði verið klippt (og þurftum við eiginlega að meta það út frá þeirri atburðarás sem fygldi í kjölfarið).

Annað dæmi um þess ritskoðunarklippingu er Four Weddings and a Funeral, sem ég sá á egypsku stöð 2. Í þeirri stórgóðu mynd er eftirminnilegt atriði, sem er raunar sprenghlægilegt, þar sem Hugh Grant lokar sig inn í skápi þegar hann er að sniglast eitthvað og lendir í því óláni að hin nýgiftu vinahjón hans læðast út veislunni og nota herbergið (þar sem Hugh greyið er að sniglast) til að taka forskot á brúðkaupsnóttina. Þetta lýðst náttúrulega ekki í egypsku sjónvarpi, þannig allt atriðið var hreinlega klippt. Með öðrum orðum fór Hugh aldrei inn í herbergið.

Einstaka sinnum, t.d. ef kona sést berbrjósta, minnka þeir einungis sjónvarpsskjáinn miðað við filmuna, þannig að andlitið sést aðeins. Veit raunar ekki hvort sumir kvikmyndaframleiðendur gera þetta fyrir Asíumarkað. Þetta sá ég t.d. gert í American Beauty - sem meikaði ekki alveg jafn mikinn sens af skiljanlegum ástæðum í arabísku útgáfunni, þar sem endirinn var frekar endaslepptur.

Stundum er þetta hreinlega fyndið á að horfa - en stundum, sérstaklega þegar maður hefur ekki séð þætti eða bíómyndir áður og þeir fjarlægja heilu atriðin með húð og hala, verður maður rosalega pirraður. En það er vissulega stór hluti af sjónvarpsáhorfi manns hérna að geta í eyðurnar.
Agust skrifaði 13.02.05 17:14 (GMT+2)
(Íslenska)