febrúar 14, 2005

Nágranni minn

Ég uppgötvaði af hverju öll þessi öryggisgæsla er í götunni minni. Venjulega standa 5-6 hermenn við hvorn endann á götunni, á horninu við húsið mitt og svo við hinn endann. Þar að auki virðist hornið fyrir framan húsið vera notað til að leggja hertrukknum sem flytur hermennina á milli staða þegar eru vaktaskipti o.þ.h. Þeir fá líka matinn sinn þangað, blessaðir.
Getur stundum verið ögn óþægilegt að ganga frá þeim þegar þeir eru að gera sig klára fyrir vakt, sveiflandi byssunum upp á öxlina og þess háttar. Hræðsla mín við skotvopn er svona álíka og við rafmagn. Ég veit að líkurnar eru litlar en maður veit aldrei.

Ég semsagt komst að því hvers vegna þessi óvenjumikla gæsla er. Nú hef ég búið við hlið sendiráða og öryggisgæslan er engan veginn svona mikil, a.m.k. ekki við "lítt merkilegar" þjóðir. Verðirnir sváfu nánast á kvöldvöktunum við kínverska og ómanska sendiráðið sem var í næstu götu við mig niður á Zamalek. Það er hinsvegar merkilegra apparat í götunni minni núna - og það í næsta húsi.

Ég bý við hliðina á Sameinuðu þjóðunum. Og það sjálfri UNHCR, Flóttamannahjálp SÞ. Í Egyptalandi eru, einsog gefur að skilja, fjöldi flóttamanna, aðallega Palestínumenn og Súdanir. Skrifstofan er því nokkuð stór, tekur alla þessa stóru byggingu og þar sem málefni flóttamanna eru ansi viðkvæm hérna er mikill hervörður (eða þeir þurfa hreinlega að geyma alla þessa hermenn sína, víst er að þeir eiga nóg af þeim) en í götunni eru líka bankar (við hinn endann) og þeirra er vanalega vel gætt. Niður á Zamalek þar sem Alþjóða vinnumálastofnun er, og Eric og Poula vinna, er yfirleitt bara einn dottandi hermaður í kassanum við hliðið.
Agust skrifaði 14.02.05 21:56 (GMT+2)
(Íslenska)