febrúar 15, 2005
Vorið kemur - bráðum
Um þetta leyti árs er meðalhitinn í Kaíró ca. 20 gráður (max) og 10 gráður (min). Þetta þýðir að dagurinn er þægilegur, sérstaklega ef það er ekki alskýjað (einsog var þrjá daga í röð í lok síðustu viku), en næturnar eru kaldar. Morgnarnir geta líka verið kaldir, þar sem heitasti tími dagsins er yfirleitt um þrjú-fjögur leytið og yfirleitt fellur hitinn ekki fyrr en seint á kvöldin.Hvað um það, núna klukkan fimm var 18 stiga hiti og alveg prýðisgott veður. Þeir hafa verið að spá mjög góðu veðri í vikulokin og núna sé ég að það á að fara upp í 28 stig á fimmtudaginn. Lægsti hiti dagsins verður 12-14 gráður (fór niður í 7 í síðustu viku), sem þýðir að hægt er að sitja úti á kvöldin, sem getur verið alveg hreint yndislegt. Síðan á reyndar að rigna á sunnudaginn og í byrjun næstu viku verður meðalhiti ríkjandi. Það er ekki komið vor ennþá en þetta stefnir allt í rétta átt.
Það kann að hljóma mjög undarlega að tala um 7 gráðu hita einsog frostaveturinn mikla en þegar maður býr í húsnæði, einsog þeir byggja húsin sín hérna, þar sem engin kynding er nema með rafmagnsofnum og byggt er frekar til að dempa hitann en halda honum inni, þá getur orðið ansi kalt ef maður er ekki með Carrier-kassann á fullu.
Það er lítil vekjaraklukka í svefnherberginu sem er með innbyggðum hitamæli, sem virðist vera tiltölulega réttur. Hann hefur sýnt niður í 17 stig og það tekur nokkuð langan tíma að fýra upp í 20 gráðurnar en ef maður gerir það ekki vaknar maður í köldu herbergi (þar sem það hlýnar ekki eftir nóttina fyrr en um það leyti sem maður vaknar). Ef ég gleymi að loka hurðinni er víst að ég vakna kaldur. Þetta þýðir líka að það getur verið einstaklega kalt að koma úr sturtunni á morgnanna, því þar er engin kynding whatsoever.
Ég er því einstaklega hamingjusamur að fá smá hitaskot, þá nær fólk kannski líka fólk úr sér kvefinu en ég hef sloppið við það að mestu, guði sé lof. Þakka Carrier-kassanum góða fyrir það og góðri upphitunar-stragetíu.
Þegar þetta er skrifað eru 5 stig í Reykjavík og köld rigning. Það er gott að vera að heiman, þó mikill vilji meira.
Agust skrifaði 15.02.05 17:49 (GMT+2)
(Íslenska)