febrúar 27, 2005
Síðbúið innflutningspartý
Í kvöld hélt ég síðbúið innflutningspartý. Ákvað að vera pínulítið "grand" og bjóða upp á mat. Pantaði mat frá local stað sem heitir GAD og var pöntunin svohljóðandi:- 4 box fúl (egypsk baunakássa)
- 4 box babaganúss (eggaldiskássa)
- 6 box húmmus (arabísk baunastappa)
- heil ósköp af nýbökuðu kúfír brauði (til að borða kássurnar með)
- 10 lítil shawarma (líbanskar kjúklingasamlokur)
- 4 ostborgarar (40 kr. stykkið)
- 3 hálfir, grillaðir kjúklingar (110 kr. stykkið)
- 3 skammtar hrísgrjón
- 20 falafel (sem reyndust tvisvar sinnum stærri en ég gerði ráð fyrir)
Vandamálið var hinsvegar að ég var ekki með nema 10 gesti á endanum, þannig ég átti í stökustu vandræðum áðan með að troða þessu öllu í ísskápinn.
Þar að kaupi á ég fullan pott (eina hreina ílátið sem ég fann með loki áðan) af smákökum með súkkulaði- og vanillubragði (2 tegundir). Ég fór nefnilega í bakaríið hinum megin við götuna og bað þá um smákökur handa átta manns (vissi sem var að Egyptar borða alltof mikið af svona sætindum, þannig ég þyrfti í mesta lagi 8 manna egypskan skammt). Okey, sagði afgreiðslumaðurinn og sagði að ég þyrfti eitt kíló af smákökum.
Hann tók við að láta smákökur í stórt box handa mér og þegar hann setti það loks á vigtinna í fyrsta skipti sagði hún 800 grömm. Nóg, sagði ég og þótti nóg komið í boxið. Ertu viss? spurði afgreiðslumaðurinn, já alveg viss. Borgaði rétt um 200 krónur fyrir tæpt kíló af smákökum og á líklegast rúmlega hálft kíló eftir af þeim í stórum skaftpotti inn í eldhúsi. Ég á líka 5 shawarma og einn hamborgara, auk þess nokkur box af fúl, babaganúss og húmmusi. Og ætli ég eigi ekki rúmlega fimmtán kúfír brauð (sem eru svipuð pítubrauði nema með sesamfræjum).
Það verða því borðaðir afgangar á þessu heimili fram eftir þessari viku. Ég var raunar að velta fyrir mér að athuga hvort að bawaabinn minn vildi fá eitthvað af þessu. Þar sem ég bý einn er ekki nokkur vinnandi vegur fyrir mig að borða nema helminginn af þessu. Gæti t.d. gefið honum þrjár dollur af fúl og smá babaganúss. Og einsog brauðið er gott nýbakað þá verður það orðið óætt eftir 2-3 daga. Já, ætli ég geri það ekki, tala við hann á morgun.
En þetta síðbúna innflutningspartý var vel heppnað.
febrúar 17, 2005
29°
Í augnablikinu eru 29 gráður og sól í Kaíró. Það er frekar heitt en það er ekki slæmt ef maður er ekki akkúrat í sólinni.Og nú fær Carrier-kassinn hvíld. Engin þörf á hitablæstri fyrir svefninn, svo mikið er víst.
febrúar 15, 2005
Vorið kemur - bráðum
Um þetta leyti árs er meðalhitinn í Kaíró ca. 20 gráður (max) og 10 gráður (min). Þetta þýðir að dagurinn er þægilegur, sérstaklega ef það er ekki alskýjað (einsog var þrjá daga í röð í lok síðustu viku), en næturnar eru kaldar. Morgnarnir geta líka verið kaldir, þar sem heitasti tími dagsins er yfirleitt um þrjú-fjögur leytið og yfirleitt fellur hitinn ekki fyrr en seint á kvöldin.Hvað um það, núna klukkan fimm var 18 stiga hiti og alveg prýðisgott veður. Þeir hafa verið að spá mjög góðu veðri í vikulokin og núna sé ég að það á að fara upp í 28 stig á fimmtudaginn. Lægsti hiti dagsins verður 12-14 gráður (fór niður í 7 í síðustu viku), sem þýðir að hægt er að sitja úti á kvöldin, sem getur verið alveg hreint yndislegt. Síðan á reyndar að rigna á sunnudaginn og í byrjun næstu viku verður meðalhiti ríkjandi. Það er ekki komið vor ennþá en þetta stefnir allt í rétta átt.
Það kann að hljóma mjög undarlega að tala um 7 gráðu hita einsog frostaveturinn mikla en þegar maður býr í húsnæði, einsog þeir byggja húsin sín hérna, þar sem engin kynding er nema með rafmagnsofnum og byggt er frekar til að dempa hitann en halda honum inni, þá getur orðið ansi kalt ef maður er ekki með Carrier-kassann á fullu.
Það er lítil vekjaraklukka í svefnherberginu sem er með innbyggðum hitamæli, sem virðist vera tiltölulega réttur. Hann hefur sýnt niður í 17 stig og það tekur nokkuð langan tíma að fýra upp í 20 gráðurnar en ef maður gerir það ekki vaknar maður í köldu herbergi (þar sem það hlýnar ekki eftir nóttina fyrr en um það leyti sem maður vaknar). Ef ég gleymi að loka hurðinni er víst að ég vakna kaldur. Þetta þýðir líka að það getur verið einstaklega kalt að koma úr sturtunni á morgnanna, því þar er engin kynding whatsoever.
Ég er því einstaklega hamingjusamur að fá smá hitaskot, þá nær fólk kannski líka fólk úr sér kvefinu en ég hef sloppið við það að mestu, guði sé lof. Þakka Carrier-kassanum góða fyrir það og góðri upphitunar-stragetíu.
Þegar þetta er skrifað eru 5 stig í Reykjavík og köld rigning. Það er gott að vera að heiman, þó mikill vilji meira.
febrúar 14, 2005
Myndir af íbúðinni
Setti inn nokkrar myndir sem ég fékk úr framköllun um helgina. Þar má meðal annars sjá myndir úr penthousinu mínu :)Kaíró '05, filma 1
Nágranni minn
Ég uppgötvaði af hverju öll þessi öryggisgæsla er í götunni minni. Venjulega standa 5-6 hermenn við hvorn endann á götunni, á horninu við húsið mitt og svo við hinn endann. Þar að auki virðist hornið fyrir framan húsið vera notað til að leggja hertrukknum sem flytur hermennina á milli staða þegar eru vaktaskipti o.þ.h. Þeir fá líka matinn sinn þangað, blessaðir.Getur stundum verið ögn óþægilegt að ganga frá þeim þegar þeir eru að gera sig klára fyrir vakt, sveiflandi byssunum upp á öxlina og þess háttar. Hræðsla mín við skotvopn er svona álíka og við rafmagn. Ég veit að líkurnar eru litlar en maður veit aldrei.
Ég semsagt komst að því hvers vegna þessi óvenjumikla gæsla er. Nú hef ég búið við hlið sendiráða og öryggisgæslan er engan veginn svona mikil, a.m.k. ekki við "lítt merkilegar" þjóðir. Verðirnir sváfu nánast á kvöldvöktunum við kínverska og ómanska sendiráðið sem var í næstu götu við mig niður á Zamalek. Það er hinsvegar merkilegra apparat í götunni minni núna - og það í næsta húsi.
Ég bý við hliðina á Sameinuðu þjóðunum. Og það sjálfri UNHCR, Flóttamannahjálp SÞ. Í Egyptalandi eru, einsog gefur að skilja, fjöldi flóttamanna, aðallega Palestínumenn og Súdanir. Skrifstofan er því nokkuð stór, tekur alla þessa stóru byggingu og þar sem málefni flóttamanna eru ansi viðkvæm hérna er mikill hervörður (eða þeir þurfa hreinlega að geyma alla þessa hermenn sína, víst er að þeir eiga nóg af þeim) en í götunni eru líka bankar (við hinn endann) og þeirra er vanalega vel gætt. Niður á Zamalek þar sem Alþjóða vinnumálastofnun er, og Eric og Poula vinna, er yfirleitt bara einn dottandi hermaður í kassanum við hliðið.
febrúar 13, 2005
Að geta í eyðurnar
Það getur krafist frjós ímyndurafls að horfa á arabísku-útgáfuna af Friends. Með "arabísku útgáfunni" á ég við þá útgáfu sem arabísku gervihnattastöðvarnar frá Flóaríkjunum sýna, t.d. Onetv í Dúbaí. Sökum ritskoðunar er nefnilega allt "ósiðlegt" klippt út. Við horfðum á Bend it Like Beckham um daginn, þar sem t.d. setning þar sem aðalpersónan, sem er shíki, segist auðvitað ekki geta gifst hvítum strák eða múslima. Samkvæmt því er bannað að segjast ekki geta gifst múslima í arabísku sjónvarpi.En aftur að Vinum. Dæmi um mismuninn á óklipptu útgáfunni af Friends og "arabísku útgáfunni":
- Barnmóðir Ross er einstæð móðir sem á vinkonu en auðvitað er samkynhneigð ekki til
- Ross og Rachel kysstust aldrei (fyrir hjónaband)
- Joey fer bara út með deitunum sínum, en sefur aldrei hjá þeim
- Í þætti sem ég sá áðan var Monica að horfa á gamla heimaupptöku. Í arabísku settist hún í sófann, horfði á upptökuna og greyp svo allt í einu fyrir munninn af undrun. Það sem hún sá á upptökunni var klippt út!
Annað dæmi um þess ritskoðunarklippingu er Four Weddings and a Funeral, sem ég sá á egypsku stöð 2. Í þeirri stórgóðu mynd er eftirminnilegt atriði, sem er raunar sprenghlægilegt, þar sem Hugh Grant lokar sig inn í skápi þegar hann er að sniglast eitthvað og lendir í því óláni að hin nýgiftu vinahjón hans læðast út veislunni og nota herbergið (þar sem Hugh greyið er að sniglast) til að taka forskot á brúðkaupsnóttina. Þetta lýðst náttúrulega ekki í egypsku sjónvarpi, þannig allt atriðið var hreinlega klippt. Með öðrum orðum fór Hugh aldrei inn í herbergið.
Einstaka sinnum, t.d. ef kona sést berbrjósta, minnka þeir einungis sjónvarpsskjáinn miðað við filmuna, þannig að andlitið sést aðeins. Veit raunar ekki hvort sumir kvikmyndaframleiðendur gera þetta fyrir Asíumarkað. Þetta sá ég t.d. gert í American Beauty - sem meikaði ekki alveg jafn mikinn sens af skiljanlegum ástæðum í arabísku útgáfunni, þar sem endirinn var frekar endaslepptur.
Stundum er þetta hreinlega fyndið á að horfa - en stundum, sérstaklega þegar maður hefur ekki séð þætti eða bíómyndir áður og þeir fjarlægja heilu atriðin með húð og hala, verður maður rosalega pirraður. En það er vissulega stór hluti af sjónvarpsáhorfi manns hérna að geta í eyðurnar.
febrúar 12, 2005
Hagl
Það kom haglél í 2-3 mínútur áðan. Í fimmtán stiga hita. Aldrei vitað annað eins! Og ég sem var úti í sólinni fyrir hálftíma síðan. Þetta minnir bara á Ísland, svei mér þá!febrúar 11, 2005
7°
Núna er SJÖ gráðu "hiti" úti, hérna í Kaíró. Var að koma heim eftir að hafa borðað í bát sem sigldi upp og niður Níl. Hálfgert túristasjóv en engu að síður Egypti sem dró okkur þangað. Hajj-vinir Gavins og Aishu. Byrjuðum ekki að borða fyrr en að verða tíu, að egypskum sið.SJÖ gráður, þoka og 81% raki, segi ég og skrifa!
febrúar 10, 2005
Nýjar - gamlar - myndir
Setti inn fyrstu filmuna sem ég tók hérna í haust. Þar eru líka nokkrar myndir frá því þegar ég stoppaði í tæpan sólarhring í Kaupmannahöfn.Filma 1
Espresso maskína
Í kvöld keypti ég mér espresso maskínu af DeLonghi gerð. Borgaði fyrir hana 9 þús. krónur. Ætli hún myndi ekki kosta 12-15 þús. heima með öllu og öllu.Ég var nokkuð hissa á því hversu vel tókst til við gerð fyrsta bollans. Alveg hreint prýðisgott kaffi. Ekki það að mig dreymir um að eiga svona apparat: Bodum Granos Automatic. Sá svoleiðis á rúman 50 þús. kall niður í Cilentro. En einhvers staðar verður maður að byrja og ég held að litli DeLonghi-inn sé góður og býr alveg jafn gott kaffi, þó hann sé ekki "automatic".
Planið er að finna fyrir hana gistingu í Bretlandi í sumar og nota hana svo í haust og næsta vetur, m.v. að ég fái inngöngu í masternámið sem ég sótti um.
Að sjálfsögðu eru allir velkomnir í kaffi til mín, El-Fawakeh gata númer tíu, íbúð 17, Mohandiseen, Kaíró.
100 undur veraldar
Hillmanwonders.com er skemmtileg síða. Þar er birtur listi yfir það sem eiganda síðunnar þykir 100 merkilegustu staðir heims.Af listanum hef ég sé eftirfarandi (númer gefa til kynna sætið sem umræddur Hillman hefur skipað staðina í):
1. Pýramítarnir í Giza, Egyptalandi
21. Akrópólis/Parþenon, Grikklandi
33. Egypska safnið í Kaíró
40. Canalarnir í Feneyjum, Ítalíu
80. Santorini, Grikklandi
5 af 100 er ekki ýkja mikið. Enda hef ég ekki ferðast það mikið í sannleika sagt. Hinsvegar stendur þetta allt til bóta að því leytinu til að ég mun leggja land undir fót um páskana og aftur í vor, þannig í sumar verð ég búinn að sjá þessa staði:
17. Karnak hofið, Egyptalandi
27. Sigling niður Níl, Egyptalandi
57. Damaskus og Umayyad moskan, Sýrlandi
64. Abú-Simbel, Egyptlandi
73. Baalbek, Líbanon
89. Búrdj al-Arab, Dúbaí, SAF
97. Súez-skurðurinn, Egyptalandi
Var raunar að fara og skoða Karnak um helgina en hætti við. Súez-skurðurinn er í einungis tveggja tíma akstursfjarlægð frá mér. Gæti skoðað hann einhverja helgina ef ég vildi.
Ef ég gæti myndi ég líka heimsækja þessa staði áður en ég fer aftur til Evrópu:
26. Petra, Jórdaníu
99. Dauðahafið, milli Jórdaníu og Ísrael
Ég heimleiðinni, í gegnum London, gæti ég svo tekið einn dag í að skoða British Museum, sem ég var reyndar að velta fyrir mér að skoða á leiðinni út en ekkert varð úr. Síðasta sumar var einfaldlega of gott veður í London til að eyða heilum degi inni á safni. Í maí ætti ég að sjá mér fært að gefa mér tíma. Þar með væri ég líka búinn að sjá undur nr. 88 :)
Ef guð lofar.
febrúar 09, 2005
Skítakuldi
Það er skítakuldi í Kaíró.Síðdegis í dag var hitinn ekki nema 13 gráður (og var m.t.t. raka ígildi einungis 8 stiga hita). Þegar ég kom heim í kvöld, eftir að hafa kíkt til Erics, var hitinn 8 stig.
Það er svo kalt að maður skrúfar upp rúðuna á leigubílnum þegar maður sest inn. Carrier maskínan stendur sem betur fer fyrir sínu og blæs heitu lofti um íbúðina. Svo er ég mjög feginn að hafa tekið sæng með mér. Og köflóttu náttfötin sjá svo til þess að manni verður ómögulega kalt á nóttinni.
Annars var ég að komast að því að hægt er að fljúga með JAT, serbneska ríkisflugfélaginu, milli London og Kaíró, með transiti í gegnum Belgrade, fyrir aðeins £220 báðar leiðir. Þarf að kanna þetta betur. Sérstaklega þar sem ég á ekki flug heim í vor og því gæti one way miðinn hjá JAT fyrir £160 verið góður kostur. Sérstaklega ef ég gæti samið um eina nótt í Belgrade. Kunnugir hafa sagt mér að Belgrade sé skemmtileg borg fyrir þær sakir að innfæddir eigi alls ekki von á útlendingum. Eftir allt, hver vill heimsækja Serbíu?
Ég væri alveg til í það, sérstaklega fyrir sáralítinn pening.
febrúar 04, 2005
Íbúð
Eftir rétt rúma tvo klukkutíma borga ég fyrir íbúðina sem ég ætla að leigja næstu vikur, fram í maí. Ég mun borga 3.000 LE á mánuði, sem er í hærri kantinum (30 þús. íslenskar). Þetta er 3 herb. íbúð, ekki stór á egypska vísu en með 30-40 fm. svölum. Hún er á 5. hæð, penthouse, í hljóðlátri götu í besta hluta Mohandiseens.Ég er mjög spenntur fyrir þessari íbúð. Hún er ekki langt frá skólanum, allir bestu vinir mínir hérna utan einn (Eric sem ég bjó með á Zamalek) er í göngufæri frá mér, kaffihús, verslanir, matsölustaðir.
Vonandi verð ég duglegri að skrifa færslur á síðuna næstu daga en það er búið að vera mikið að gera hjá mér, m.a. við að finna íbúð. Fyrsta vikan í skólanum er rétt búin og er áfanginn mun þægilegri en sá síðasti. Farið rólegra yfir, þannig maður nær að halda í við efnið án vandræða.