mars 17, 2005
Hefnd farósins
Um síðustu helgi fór ég í fjórða skiptið að skoða pýramítana. Ágætt að komast aðeins "út í sveit", við fórum niður til Sakkara en þar eru akrar í lange baner meðfram þjóðveginum áður en maður kemur að elstu pýramítunum.Í fyrsta skipti fór ég inn í einn stóru pýramítanna í Gíza (Khafre, sem er í miðjunni). Þar var nákvæmlega ekkert merkilegt að sjá, eftir að hafa klöngrast gegnum metersháa ganga, nema veggjakrot á frönsku eða ítölsku frá 1818. Já það hlýtur að hafa verið magnað að vera uppi á þeim tímum þegar menn skildu varanleg ummerki eftir sig á menningarmynjunum og tóku svo nokkrar múmíur með sér heim (svo voru víst mjög vinsæl partý allt fram undir 1900 þegar Egyptalandsfarar "opnuðu" múmíurnar sínar, s.k. "unwrapping parties").
Hvað um það, hér í Egyptalandi er talað um "hefnd farósins", sem er niðurgangskveisa, oft með hita og fólk steinliggur í ca. tvo daga. Flestir fá þetta eftir að hafa verið viku, hálfan mánuð í landinu. Nú er ég búinn að búa hérna í 4 mánuði og daginn eftir að ég fór óboðinn (en með miða úr miðasölunni) inn í gröf farósins lá ég með hefnd farósins. Tilviljun?
Á mánudaginn fór vatnið af íbúðinni. Vatnsdælan sem dælir vatninu upp á 5. hæð hætti að fúnkera. Í gærkvöldi var ég inni á baði og bölvaði rofanum, ýtti í hann í rælni og viti menn, dælan fór í gang.
Í dag kom svo viðgerðarmaður, á réttum tíma í þetta skiptið sem verður að teljast hreint ótrúlegt og skipti um rofann. Núna er timer á honum, sem er svosem ágætt, þá get ég t.d. þvegið þvott og farið úr húsi án þess að mótorinn bræði úr sér. Viðgerðarmaður leit einmitt á umræddan mótor/dælu og sagðist koma aftur á laugardaginn til að tjasla eitthvað upp á hann. En mér sýnist ég komast aftur í sturtu heima hjá mér núna, a.m.k. kominn þrýstur á vatnið, þangað til mótorinn tekur upp á einhverju öðru.
Síðustu tvo daga hefur bakteríusýking í vinstra auga verið að hrella mig. Þetta er alveg ótrúlega hvimleiður fjandi en ég fékk tvennskonar dropa í apótekinu við þessu. Lítur frekar illa út en ég hef svosem fengið svona áður. Hérna í eyðimörkinni þar sem allt er skítugt og ekki síst loftið er enn verra að vera með svona vesen í auganu.
En nóg í bili.
Agust skrifaði 17.03.05 15:19 (GMT+2)
(Íslenska)
Comments
Það er varla að ég þori að koma í heimsókn ef allt er svona mengandi og skítugt.
Passaðu augað :)