mars 27, 2005

Tómt Tahrir

Ætlaði að vakna snemma og drífa mig niður í Múgamma í morgun. Tókst ekki betur en svo að ég lagði ekki af stað fyrr en að ganga ellefu.

Var klukkutíma á leiðinni. Stanslaus umferðarteppa frá Abdel Aziz niður í bæ. Eina skiptið sem umferðin hreyfðist pínulítið var á Októberbrúnni. Tahrir-torg lokað. Fjárinn.
Endaði á því að fara úr leigubílnum í Garden City. Labbaði þangað niður eftir. Bíll við bíl, enginn í gangi og margir ekki lengur í bílunum, nú eða bara sofandi í þeim.
Áfram hélt ég þangað til ég kom að Qasr el-Aini götu. Þar tóku á móti mér nokkur hundruð hermenn með alvæpni, í skotheldum vestum og með óeirðahjálma (þessa sem líta út einsog logsuðuhjálmar með glæru gleri). Eftir að hafa gengið meðfram röðum af hermönnum lengi vel komst ég að Múgammanu. Þar var ég hleypt inn af officer. Stundum eru forréttindi að vera hvítur útlendingur. Ég gat labbað nánast óhindrað fram að því. Innfæddir, svo ekki sé talað um Súdanina, voru stoppaðir við hvert fótmál og spurðir erinda eftir því nær dró torginu. Múgammað var nánast tómt, aldrei þessu vant. Engar biðraðir og allt ferlið tók ekki nema korter að þessu sinni. Mér var sagt að ég gæti komið aftur klukkan tvö að sækja passann.

Þar sem það var rúmur klukkutími þangað til ég gat sótt passann aftur ákvað ég að fara yfir í Nile Hilton hótelið og nýta salernisaðstöðuna þar (bestu klósettin á Tahrir og þótt víðar væri leitað). Það útheimti næstum klukkutíma ferðalag. Fór upp á Talat Harb til að komast niður á Ramsis og þaðan með Níl á hótelið. Fékk mér því límonaði á barnum, notaði aðstöðuna góðu og dreif mig aftur út og ætlaði að finna leið til að komast aftur í Múgammað.

Eftir að hafa reynt að fá nokkra officera til að hleypa mér í gegn og loks gefist upp náði ég í leigubíl sem flutti mig yfir Qasr el-Nil brúnna út að Óperu, þaðan sem ég tók metróinn niður á Sadat og kom upp beint fyrir framan Múgammað klukkan hálf-þrjú, til þess eins að mæta dömunni sem afgreiðir passana á leiðinni niður stigann, sem sagði mér að ég yrði að koma á morgun, allir væru farnir heim.

Þegar ég kom aftur út voru hermennirnir að marsera í burtu. Þessir strákbjálfar geta ekki einu sinni marserað í takt. Það eru sjálfsagt úrvalssveitir í því þegar Hosní frændi heldur hersýningar.

Fór á Cilentro fyrir framan AUC og fékk mér kaffi og samloku. Náði mér í leigubíl og var svo heppinn að lenda á góðum leigubílsstjóra. Kjaftaði á honum hver tuska - á ensku, sem er kærkomin tilbreyting. Hann sagði mér að herskyldan hérna er eitt ár fyrir háskólamenntaða, eitt og hálft ár fyrir framhaldsskólamenntaða og þrjú ár fyrir ómenntaða. Þeir fá um þúsundkall á mánuði.
Sjálfur var hann í hernum í 6 ár, frá 1969-75. Var loftskeytamaður. Barðist í stríðinu '73 við Ísraela og sagðist hafa verið heppinn, aldrei hafa lent í beinum átökum. Hann sagðist kunna elsku síðan í skóla (greinilegt að menntun var veitt í gagnfræðaskólum landsins á þeim tíma, ólíkt nú). Síðar vann hann fyrir kanadískt fyrirtæki. Nú keyrir hann gamlan Fiat og hefur það gott. Maður getur haft upp í 200 LE fyrir daginn ef maður kann ensku og nær í útlendinga, sagði hann. Það er tvisvar sinnum meira en læknar og lögfræðingar eru oft að fá.

Það verða allir pirraðir þegar þeir gera þetta, sagði hann um lokunina á miðbænum. Rútum með túristum er hleypt í gegn en aðrir komast hvorki lönd né strönd. Fólk vill komast heim til sín. Enginn skilur hvers vegna það þarf að setja allt úr skorðum á virkum degi.

Og af hverju var allt lokað? Heilbrigðistráðherrar Arababandalagsins voru að hittast í höfuðstöðvum þess niður í bæ. Það var þá.

Uppfært: Búi maður í Kaíró fréttir maður oft síðastur manna hvað gerist hérna. Þetta var þá vegna mótmæla Múslimska bræðralagsins eftir allt saman, sjá t.d. þessa frétt: Egypt rally demands political reforms
Agust skrifaði 27.03.05 17:12 (GMT+2)
(Íslenska)