mars 27, 2005
Pósturinn - allur pakkinn
Á fimmtudaginn þurfti ég að sækja ábyrgðarbréf að heiman niður á pósthús. Kom þangað um tvöleytið og var sagt að koma aftur klukkan fimm.Ég komst ekki um fimmleytið þar sem það var maður að setja upp vatnshitara í eldhúsinu. Ég hringdi því í pósthúsið (hafði fengið númerið þegar ég kom fyrr um daginn) og fékk samband við póstmeistarann.
Ég sagðist ekki komast og ég þyrfti að fá bréfið Í DAG. Hann sagði að allir væru að fara heim, ég yrði að koma fyrir hálf-fimm, hann myndi bíða eftir mér með bréfið, annars yrði ég að koma á laugardag. Ég sagði honum að ég kæmist ekki þá og ég yrði að fá bréfið strax í dag, hvort að hann gæti ekki fengið einhvern póstburðarmannanna til að koma með það til mín fyrir 10 LE. Hann sagði, herra minn, við erum starfsmenn ríkisins, við fáum laun okkar frá ríkisstjórninni, við berum út póst til fólks, það er okkar starf, við tökum ekki við peningum frá fólkinu. Ég sagði aftur, vinsamlegast, ég þarf bréfið í dag, 10 LE ættu að vera nóg ferðakostnaði. Bíddu aðeins, sagði hann. Svo kallaði hann á einhvern, geturðu farið með bréf upp í Ávextagötu fyrir tíu pund? Já, tíu pund, hann borgar þér tíu pund fyrir. Ókei herra minn, hann kemur eftir circa hálftíma en þú verður að borga honum 10 pund, ókei? Ókei, þakka þér kærlega.
Hálftíma síðar kom póstmaður með bréfið og ég skrifaði undir á eyðiblað. Gaf honum 10 LE (hundraðkall) og hann brosti einsog barn á jólunum.
Ætli póstburðarmenn séu ekki með eitthvað um 200 krónur á dag í laun, ekki mikið meira.
Stundum getur verið hentugt að það má alltaf finna leiðir til að leysa málin með smá baksheesh.
Agust skrifaði 27.03.05 17:59 (GMT+2)
(Íslenska)