mars 29, 2005

10.000 manna útför í næstu götu

Í kvöld söfnuðust 10.000 manns saman á torginu fyrir framan Mústafa Mahmúd moskuna við útför ástsælasta leikara þjóðarinnar.

Mústafa Mahmúd er í næstu götu við mig. Gatan mín er upp af torginu fyrir framan moskuna. Þetta er líka það kennileyti sem allir þekkja og er því besta leiðin til að komast heim í leigubíl, að biðja um að vera ekið að Mústafa Mahmúd.

Ég heyrði í hátölurunum í allt kvöld. Bænahaldið var örugglega í eina þrjá tíma. Þegar ég kom heim í dag neðan úr bæ var verið að setja upp stór tjöld á torginu og þess háttar.
Agust skrifaði kl. 3:02 | Comments (1)
Flokkun: Íslenska

mars 27, 2005

Pósturinn - allur pakkinn

Á fimmtudaginn þurfti ég að sækja ábyrgðarbréf að heiman niður á pósthús. Kom þangað um tvöleytið og var sagt að koma aftur klukkan fimm.

Ég komst ekki um fimmleytið þar sem það var maður að setja upp vatnshitara í eldhúsinu. Ég hringdi því í pósthúsið (hafði fengið númerið þegar ég kom fyrr um daginn) og fékk samband við póstmeistarann.

Ég sagðist ekki komast og ég þyrfti að fá bréfið Í DAG. Hann sagði að allir væru að fara heim, ég yrði að koma fyrir hálf-fimm, hann myndi bíða eftir mér með bréfið, annars yrði ég að koma á laugardag. Ég sagði honum að ég kæmist ekki þá og ég yrði að fá bréfið strax í dag, hvort að hann gæti ekki fengið einhvern póstburðarmannanna til að koma með það til mín fyrir 10 LE. Hann sagði, herra minn, við erum starfsmenn ríkisins, við fáum laun okkar frá ríkisstjórninni, við berum út póst til fólks, það er okkar starf, við tökum ekki við peningum frá fólkinu. Ég sagði aftur, vinsamlegast, ég þarf bréfið í dag, 10 LE ættu að vera nóg ferðakostnaði. Bíddu aðeins, sagði hann. Svo kallaði hann á einhvern, geturðu farið með bréf upp í Ávextagötu fyrir tíu pund? Já, tíu pund, hann borgar þér tíu pund fyrir. Ókei herra minn, hann kemur eftir circa hálftíma en þú verður að borga honum 10 pund, ókei? Ókei, þakka þér kærlega.

Hálftíma síðar kom póstmaður með bréfið og ég skrifaði undir á eyðiblað. Gaf honum 10 LE (hundraðkall) og hann brosti einsog barn á jólunum.

Ætli póstburðarmenn séu ekki með eitthvað um 200 krónur á dag í laun, ekki mikið meira.

Stundum getur verið hentugt að það má alltaf finna leiðir til að leysa málin með smá baksheesh.
Agust skrifaði kl. 17:59
Flokkun: Íslenska

Tómt Tahrir

Ætlaði að vakna snemma og drífa mig niður í Múgamma í morgun. Tókst ekki betur en svo að ég lagði ekki af stað fyrr en að ganga ellefu.

Var klukkutíma á leiðinni. Stanslaus umferðarteppa frá Abdel Aziz niður í bæ. Eina skiptið sem umferðin hreyfðist pínulítið var á Októberbrúnni. Tahrir-torg lokað. Fjárinn.
Endaði á því að fara úr leigubílnum í Garden City. Labbaði þangað niður eftir. Bíll við bíl, enginn í gangi og margir ekki lengur í bílunum, nú eða bara sofandi í þeim.
Áfram hélt ég þangað til ég kom að Qasr el-Aini götu. Þar tóku á móti mér nokkur hundruð hermenn með alvæpni, í skotheldum vestum og með óeirðahjálma (þessa sem líta út einsog logsuðuhjálmar með glæru gleri). Eftir að hafa gengið meðfram röðum af hermönnum lengi vel komst ég að Múgammanu. Þar var ég hleypt inn af officer. Stundum eru forréttindi að vera hvítur útlendingur. Ég gat labbað nánast óhindrað fram að því. Innfæddir, svo ekki sé talað um Súdanina, voru stoppaðir við hvert fótmál og spurðir erinda eftir því nær dró torginu. Múgammað var nánast tómt, aldrei þessu vant. Engar biðraðir og allt ferlið tók ekki nema korter að þessu sinni. Mér var sagt að ég gæti komið aftur klukkan tvö að sækja passann.

Þar sem það var rúmur klukkutími þangað til ég gat sótt passann aftur ákvað ég að fara yfir í Nile Hilton hótelið og nýta salernisaðstöðuna þar (bestu klósettin á Tahrir og þótt víðar væri leitað). Það útheimti næstum klukkutíma ferðalag. Fór upp á Talat Harb til að komast niður á Ramsis og þaðan með Níl á hótelið. Fékk mér því límonaði á barnum, notaði aðstöðuna góðu og dreif mig aftur út og ætlaði að finna leið til að komast aftur í Múgammað.

Eftir að hafa reynt að fá nokkra officera til að hleypa mér í gegn og loks gefist upp náði ég í leigubíl sem flutti mig yfir Qasr el-Nil brúnna út að Óperu, þaðan sem ég tók metróinn niður á Sadat og kom upp beint fyrir framan Múgammað klukkan hálf-þrjú, til þess eins að mæta dömunni sem afgreiðir passana á leiðinni niður stigann, sem sagði mér að ég yrði að koma á morgun, allir væru farnir heim.

Þegar ég kom aftur út voru hermennirnir að marsera í burtu. Þessir strákbjálfar geta ekki einu sinni marserað í takt. Það eru sjálfsagt úrvalssveitir í því þegar Hosní frændi heldur hersýningar.

Fór á Cilentro fyrir framan AUC og fékk mér kaffi og samloku. Náði mér í leigubíl og var svo heppinn að lenda á góðum leigubílsstjóra. Kjaftaði á honum hver tuska - á ensku, sem er kærkomin tilbreyting. Hann sagði mér að herskyldan hérna er eitt ár fyrir háskólamenntaða, eitt og hálft ár fyrir framhaldsskólamenntaða og þrjú ár fyrir ómenntaða. Þeir fá um þúsundkall á mánuði.
Sjálfur var hann í hernum í 6 ár, frá 1969-75. Var loftskeytamaður. Barðist í stríðinu '73 við Ísraela og sagðist hafa verið heppinn, aldrei hafa lent í beinum átökum. Hann sagðist kunna elsku síðan í skóla (greinilegt að menntun var veitt í gagnfræðaskólum landsins á þeim tíma, ólíkt nú). Síðar vann hann fyrir kanadískt fyrirtæki. Nú keyrir hann gamlan Fiat og hefur það gott. Maður getur haft upp í 200 LE fyrir daginn ef maður kann ensku og nær í útlendinga, sagði hann. Það er tvisvar sinnum meira en læknar og lögfræðingar eru oft að fá.

Það verða allir pirraðir þegar þeir gera þetta, sagði hann um lokunina á miðbænum. Rútum með túristum er hleypt í gegn en aðrir komast hvorki lönd né strönd. Fólk vill komast heim til sín. Enginn skilur hvers vegna það þarf að setja allt úr skorðum á virkum degi.

Og af hverju var allt lokað? Heilbrigðistráðherrar Arababandalagsins voru að hittast í höfuðstöðvum þess niður í bæ. Það var þá.

Uppfært: Búi maður í Kaíró fréttir maður oft síðastur manna hvað gerist hérna. Þetta var þá vegna mótmæla Múslimska bræðralagsins eftir allt saman, sjá t.d. þessa frétt: Egypt rally demands political reforms
Agust skrifaði kl. 17:12
Flokkun: Íslenska

Múbarak forseti tók á móti...

Skrifaði litla færslu á "aðalsíðuna": Arra'ís Hosní Múbarak
Agust skrifaði kl. 2:03
Flokkun: Íslenska

mars 26, 2005

New pictures

Added a lot of pictures from February and March.

In Part 2 there are pictures from Ahmed's, Aline and Simona's party and some more. In the 3rd Part we have pictures since Aline's sister and Satcho, G&A's friend were here, most from our trip to Sakkara and Giza.

That is all.
Agust skrifaði kl. 20:17
Flokkun: English

mars 24, 2005

GSM í útlöndum

Að svara í íslenskt númer frá Ogvodafone í Egyptalandi kostar 70 kr. per mín.

Í Líbanon er, að því er virðist, enginn reykisamningur hjá Ogvodafone en í Sýrlandi kostar hver mínúta móttekin frá Íslandi 90 kr. og 20 kr. hvert sms.

Held þessu hérna til haga, fyrir sjálfan mig.
Agust skrifaði kl. 1:20
Flokkun: Íslenska

Kvöld

Í kvöld horfði ég á What's New Pussycat með Aline, eftir að við pöntuðum mat frá Gad (borðuðum á okkur gat fyrir 250 ísk) og átum úti á þakterrasinu.

Eigandinn, frú Amina, kom í kvöld með viðgerðarmenn í eftirdragi. Hún kom með hitara fyrir eldhúsvaskinn og nýjan sturtuhaus fyrir salernið (jú, hér smúla menn á sér bossann, nokkuð sem ég hef ekki tekið upp). Hitarinn er nú vatnstengdur en rafmagnið verður tengt á morgun. Þarf annan viðgerðarmann í það, ekki sama vatn og rafmagn, ekki einu sinni í Kaíró. Hingað til hef ég vaskað upp úr köldu vatni, einsog egypskar húsmæður gera almennt. Ef vaskurinn hefur safnað leirtaui, sem gerist sjaldnast, hef ég sótt vatn í bala í baðherbergisvaskinn og vaskað upp úr honum (annað element við egypska vaska er að nær útilokað er að finna tappa í þá). En nú mun ég geta vaskur vaskað úr heitu vaskavatni án þess að þurfa að fara í annan vask eftir vatninu!

Afi hringdi í kvöld. Spjallaði við hann í rúmt korter. Þótti vænt um það.
Agust skrifaði kl. 0:45
Flokkun: Íslenska

mars 17, 2005

Hefnd farósins

Um síðustu helgi fór ég í fjórða skiptið að skoða pýramítana. Ágætt að komast aðeins "út í sveit", við fórum niður til Sakkara en þar eru akrar í lange baner meðfram þjóðveginum áður en maður kemur að elstu pýramítunum.

Í fyrsta skipti fór ég inn í einn stóru pýramítanna í Gíza (Khafre, sem er í miðjunni). Þar var nákvæmlega ekkert merkilegt að sjá, eftir að hafa klöngrast gegnum metersháa ganga, nema veggjakrot á frönsku eða ítölsku frá 1818. Já það hlýtur að hafa verið magnað að vera uppi á þeim tímum þegar menn skildu varanleg ummerki eftir sig á menningarmynjunum og tóku svo nokkrar múmíur með sér heim (svo voru víst mjög vinsæl partý allt fram undir 1900 þegar Egyptalandsfarar "opnuðu" múmíurnar sínar, s.k. "unwrapping parties").

Hvað um það, hér í Egyptalandi er talað um "hefnd farósins", sem er niðurgangskveisa, oft með hita og fólk steinliggur í ca. tvo daga. Flestir fá þetta eftir að hafa verið viku, hálfan mánuð í landinu. Nú er ég búinn að búa hérna í 4 mánuði og daginn eftir að ég fór óboðinn (en með miða úr miðasölunni) inn í gröf farósins lá ég með hefnd farósins. Tilviljun?

Á mánudaginn fór vatnið af íbúðinni. Vatnsdælan sem dælir vatninu upp á 5. hæð hætti að fúnkera. Í gærkvöldi var ég inni á baði og bölvaði rofanum, ýtti í hann í rælni og viti menn, dælan fór í gang.

Í dag kom svo viðgerðarmaður, á réttum tíma í þetta skiptið sem verður að teljast hreint ótrúlegt og skipti um rofann. Núna er timer á honum, sem er svosem ágætt, þá get ég t.d. þvegið þvott og farið úr húsi án þess að mótorinn bræði úr sér. Viðgerðarmaður leit einmitt á umræddan mótor/dælu og sagðist koma aftur á laugardaginn til að tjasla eitthvað upp á hann. En mér sýnist ég komast aftur í sturtu heima hjá mér núna, a.m.k. kominn þrýstur á vatnið, þangað til mótorinn tekur upp á einhverju öðru.

Síðustu tvo daga hefur bakteríusýking í vinstra auga verið að hrella mig. Þetta er alveg ótrúlega hvimleiður fjandi en ég fékk tvennskonar dropa í apótekinu við þessu. Lítur frekar illa út en ég hef svosem fengið svona áður. Hérna í eyðimörkinni þar sem allt er skítugt og ekki síst loftið er enn verra að vera með svona vesen í auganu.

En nóg í bili.
Agust skrifaði kl. 15:19 | Comments (1)
Flokkun: Íslenska

mars 09, 2005

Háskólablaðið

Fyrir þá sem ekki vissu, þá var stuttur greinarstúfur eftir mig í Háskólablaðinu sem kom út á laugardaginn (fylgdi Fréttablaðinu). Þar fjallaði ég aðeins um dvöl mína hérna, af hverju ég féll fyrir borginni og hvað pirrar mig helst.
Agust skrifaði kl. 17:42
Flokkun: Íslenska

Dagsins amstur

Hér hef ég ekkert skrifað í circa 10 daga. Engar sérstakar ástæður sem liggja þar að baki. Annarri viku í MSA4 líkur á morgun. Búið að vera nóg að gera. Mikill orðaforði að bætast við, sérstaklega fyrir mig, þar sem það er minn Akkilesarhæll. Hef því verið að reyna að bæta mig sem mest ég má. Heimavinnan hefur því farið upp í 5-6 tíma á dag. Eyði þegar mest er 2-3 tímum fyrir kvöldmat, eftir að ég kem heim úr skólanum, öðru eins eftir kvöldmat og svo klukkutíma á morgnanna áður en ég fer í skólann. Það gefur skiljanlega lítinn tíma til annars en að eyða síðkvöldinu í sjónvarpsgláp eða aðra dægrastyttingu. Ekki alveg nógu gott, miðandi við að umhverfið ætti að hafa nóg annað upp á að bjóða. En á móti reyni ég að nýta helgarnar vel.

Ekki er samt allt strit í litlu expatatilverunni minni. Er að fara í viku til Beirút og Damaskus, með viðkomu í Baalbak, vikuna eftir páskadag, inshallah.
Agust skrifaði kl. 17:39 | Comments (1)
Flokkun: Íslenska